Það er gömul saga og ný að árangur fyrirtækja er tileinkaður hæfu og framúrskarandi starfsfólki. Enda eru flest fyrirtæki lítið án fólksins sem þar starfar. Því hefur jafnframt verið haldið fram að starfsfólk sé verðmætasta eign fyrirtækja, líklegast er það hárrétt í fjölmörgum tilfellum. Það eru gríðarleg verðmæti fólgin í þeirri óáþreifanlegu og illyfirfæranlegu þekkingu sem starfsfólk öðlast með starfsreynslu, hinu svokallaða „know-how“, eða „tacit knowledge“ ef við flettum upp í fræðibókunum. Það er einmitt þessi þekking sem er fyrirtækjum verðmæt og er dýrt að missa og þurfa að endurnýja með þjálfun nýrra starfsmanna.
Fjölmörg fyrirtæki hafa orðið vör við þennan kostnað undanfarin tvö ár í tengslum við þá bylgju uppsagna sem hófst í kjölfar heimsfaraldursins og hefur verið kölluð stóra uppsögnin (e. big resignation). Það virðist vera lítið lát á þessari bylgju því samkvæmt niðurstöðum könnunar sem PwC birti fyrr á árinu segist 1 af hverju 5 vera mjög líklegur til þess að finna sér nýja vinnuveitendur á árinu. Rúmlega 50.000 einstaklingar í 44 löndum svöruðu könnuninni. Sterk fylgni var á milli lækkandi aldurs og þess að vera líklegur til að segja upp starfinu á þessu ári, í raun átti það við 27% þeirra sem tilheyra Z-kynslóðinni. Þá voru einnig tekin til þrjú atriði sem hafa mest áhrif á það hvort fólki leiti á önnur mið.
• 71%* Laun og kjör
• 69%* Að starfið sé gefandi (e. fulfilling)
• 66%* Að fólk geti verið það sjálft
*Hlutfall svarenda sem sagði annaðhvort að atriðið skipti „miklu máli“ eða „mjög miklu máli“.
Það eru því gagnsæi og heilindi sem trompa listann, ásamt kjörum. Í skýrslunni er útlistað hversu mikilvægt svarendum þótti gagnsæi vinnuveitenda vera þegar kemur að öryggi og samfélagsvandamálum. Þetta er í takt við þá þróun sem á sér stað á neytendahliðinni þar sem að aukin köllun hefur verið eftir því að fyrirtæki beiti sér í samfélagslegri umræðu og sé gagnsætt í afstöðu sinni.
Það er því nokkuð ljóst að fyrirtæki geta ekki sótt eða haldið í starfsmenn á kjörunum einum saman. Það þarf meira til. Fyrirtæki og aðrar skipulagsheildir þurfa að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi og sjálfsmynd vörumerkis sem starfsmenn geta samsamað sig við og fellur að þeirra eigin gildum. Skilgreiningin á sjálfsmynd vörumerkis er sú mynd sem starfsfólk hefur á eiginleikum eigin fyrirtækis.
Þá er ekki síður mikilvægt að miðla því til starfsfólks á skilvirkan máta hver sjálfsmyndin er og fyrir hvað vörumerkið stendur. Ráðningar ættu einnig að miða að því að finna starfsmenn sem líkar við stefnuna og munu taka þátt í að styrkja hana. Þar sem fyrirtækjum tekst best til mætast stefna, mannauðsstjórnun og markaðssetning fyrirtækja og skapa skýra sjálfsmynd hjá starfsfólki.
Með nýjustu lausn brandr, Stafrænni vitund, geta fyrirtæki, deildir eða aðrar skipulagsheildir sameinast í því að rýna sameiginlega stefnuna sem leggur grunninn að sterkari sjálfsmynd vörumerkisins og starfsmönnum þess, hver erum við í dag og hver viljum við vera í framtíðinni?