Þriðjudaginn þann 18. október sl. stóð brandr vörumerkjastofa fyrir erindi sem bar heitið Vörumerki í Metaverse. Erindið var hluti af orkuráðstefnunni CHARGE en áhugasömum bauðst að kaupa sér miða á erindið utan ráðstefnunnar. Erindið hófst á framsögu frá Gabor Schreier, hönnunarstjóra alþjóðlegu vörumerkjastofunnar Saffron, samstarfsaðila brandr, og sáu þau m.a. um alla vinnu við endurmörkun Facebook yfir í Meta. Gabor og hans teymi hefur fengið að kynnast ítarlega hugsuninni að baki Metaverse og fengu þau leyfi til að deila með áheyrendum. Að framsögu lokinni settist Gabor niður með Friðriki Larsen, eiganda og stofnanda brandr, ásamt góðum hópi stjórnenda úr íslensku atvinnulífi. Í þeim hópi voru Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís, Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs PLAY og Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. Siðferði, aðgengismál, kennslutækifæri, þróun í starfsmannamálum og tækifæri til markaðssetningar og upplifanna voru meðal annars til umræðu.
Framsaga hönnunarstjóra Saffron vörumerkjastofu
Í framsögu Gabors tók hann fram að Metaverse sé framtíð internetsins og næsta skref í stafrænum samskiptum. Internet 3.0 verður áþreifanlegri hluti af lífi okkar, þar sem við munum lifa í blönduðum (e. hybrid) heimi. Það er mikið af röngum upplýsingum og fyrirfram mótuðum hugmyndum á sveimi um Metaverse en það sem er þó rétt er að það er minna áþreifanlegt en við viljum en þó nær okkur en við höldum. Vörumerki þurfa að aðlagast og taka þátt í þessum nýja heimi en af hverju? Af því að vörumerki fara þangað sem fólkið fer. Tækni fleygir fram sem þýðir að væntingar og kröfur einstaklinga breytast og þar með hvernig vörumerki þurfa að hegða sér. Talað er um að Metaverse þjóni tvennum tilgangi – fyrir neytendur og fyrir vinnumarkað. Neytendur geti nýtt sér Metaverse sem upplifunartól og sem eignavörslu. Á hinn bóginn geti Metaverse nýst á vinnumarkaði á margan hátt, t.d. til að prófa flæði nýrra flugvalla.
Pallborð stjórnenda úr íslensku atvinnulífi
Þátttakendur í pallborði höfðu efasemdir um framhaldið enda tíðkast hræðsla við það óþekkta. Þrátt fyrir það voru þau spennt fyrir framtíðinni og ætla að fylgjast með þróun tækninnar og áhuga fólks á Metaverse. Samkvæmt Gabor Schreier er það þannig sem töfrarnir gerast, þegar fólk er spennt en smeykt á sama tíma. Áhorfendur voru sammála um að nú væri tíminn til að kynnast þeirri tækniþróun sem er að eiga sér stað.
Brynhildur Guðjónsdóttir efaðist um að sýndarveruleiki gæti komið í stað þeirrar upplifunar sem á sér stað þegar fólk mætir í leikhús. Hún telur þó geta verið ýmsar hliðarafurðir og viðbótarþjónusta falin í Metaverse, sem leikhús gætu nýtt sér til að gera upplifun leikhúsgesta enn sterkari og gert leikhús aðgengilegra fyrir þau sem eiga erfitt með að sækja það t.a.m. vegna fötlunar.
Frosti Ólafsson batt vonir við að geta notað Metaverse sem uppbyggjandi tæki fyrir framtíðina og sér m.a. fyrir sér möguleika til að hlúa að starfsmannamálum hjá Olís eða jafnvel tækifæri til að umbylta smásölu fyrirtækisins.
Gabor Schreier nefndi að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við munum búa í blönduðum heimi í framtíðinni. Metaverse er ekki aðeins gert fyrir yngri kynslóðir og tölvuleiki heldur verður hægt að blanda sýndarveruleika við raunveruleika þar sem bæði fólk og fyrirtæki munu eiga sér „stafræna tvíbura“. Við erum ekki gerð til þess að sitja í átta tíma á dag með sýndarveruleika á nefinu, það hljómar hins vegar vel að vera í sumarbústaðnum sínum í Grímsnesi og geta mætt til vinnu í gegnum Metaverse. Að sjálfsögðu er ekki hægt að borða hamborgara í Metaverse en McDonalds getur fært notendum aðra upplifun í gegn um Metaverse.
Hrefna Sigfinnsdóttir tekur Metaverse og stafrænni þróun alvarlega og sér fyrir sér að nýta slíkt sem sameiningartól fyrir Creditinfo en það er starfrækt er í 25 löndum. Hún benti líka á að Metaverse er risastórt verkefni fyrir regluverði og að það sé áhugaverður vinkill.
Georg Haraldsson nefndi að þó að PLAY sé ekki með á áætlun um að úthluta markaðsfé í átt að Metaverse eins og staðan er núna, þá muni þau fylgjast grannt með. Það felist tækifæri fyrir flugfélög í Metaverse sem eru þó allt önnur en hvað varðar ferðalögin sjálf. Það er einmitt það sem Gabor lagði áherslu á – það felast allt önnur tækifæri í Metaverse en við getum ímyndað okkur í dag og þessi tækifæri krefjast hugarfarsbreytingar hjá okkur. Hann nefnir dæmi um það hvernig hvernig Qatar Airlines hafi hannað QVerse sem sölutól. Það leyfir forvitnum að fá smjörþefinn af upplifuninni að ferðast með flugfélaginu.
Tæknin er tilbúin fyrir okkur, en er mannfólkið tilbúið fyrir tæknina?